Zontastarfið er ákaflega gefandi. Það hefur víkkað sjóndeildarhring minn á svo margan hátt. Ég hef kynnst mörgum frábærum konum úr ýmsum starfsstéttum sem á óeigingjarnan hátt hafa stuðlað að bættum hag kvenna bæði hér á landi og á alþjóðagrundvelli.
Ég hef verið í Zontaklúbbnum Emblu frá árinu 1988 og hef því haft tækifæri til að taka þátt í hvetjandi og árangursríku samstarfi til þess að hjálpa konum. Vináttan og samveran með hinum mörgu Zontum hafa auðgað líf mitt og það eru einnig forréttindi að fá að taka þátt í slíku mannúðarstarfi. Klúbbstarfið hefur verið ákaflega fjölbreytt, fræðandi og skemmtilegt.
Á fundunum hafa verið haldnir fyrirlestrar, fræðsla hefur verið um Zontamálefni, vinnustaðir heimsóttir, sameiginlegir fundir með öðrum Zontaklúbbum hafa verið haldnir og farnar hafa verið skemmtiferðir, oft með vinum og vandamönnum. Lands- og svæðisfundir eru sérstaklega skemmtilegir og áhugaverðir. Þar kynnumst við konum frá öðrum landshlutum og löndum, störfum þeirra og siðum og vináttubönd eru oft mynduð.
Helga Eysteinsdóttir